Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, sagði Í ávarpi sínu í ársskýrslu fyrir 2013 að það þyrfti ekki að koma á óvart að í starfsánægjukönnun kom í ljós að það gætir ákveðinnar þreytu. Hvað nákvæmlega sýndi könnunin?

„Starfsánægja hélst lengi vel stöðug, þrátt fyrir mikið álag. En það sem við sáum árið 2013 er að fólk var allt í einu búið að fá nóg. Starfsánægja var farin að dala,“ segir Páll. Hann segir að það sé munur á starfsánægju eftir sviðum. „En við sáum þetta alveg heilt yfir, hvort sem hún var góð fyrir eða ekki svo góð, að þá var svipuð lækkun, nærri 6%,“ segir Páll. Hann telur að fyrir þessu séu ýmsar skýringar.

„Ég held að nærtækasta skýringin sé sú að fólk var búið að fá nóg af aðhaldskröfum ár eftir ár án þess að það sæi fyrir endann á þeim,“ segir hann. Hann segist telja starfsánægju meðal grunnforsendna góðs rekstrar, en hún sé flókið fyrirbæri sem snúist um meira en bara peninga. Hún snúist um traust starfsfólks til stjórnenda og virðingu stjórnenda í garð starfsfólks, en hlutir eins og gegnsæi og samráð skipti þar miklu. Von sé svo mikilvæg, að fólk sjái að fara eigi að bæta hlutina, byggja upp, fólk þoli ýmislegt ef betri tíð sé í vændum.

Páll segir að áfram verði unnið í því að byggja upp starfsánægju. Stór starfsánægjukönnun er gerð annað hvert ár og minni netkannanir þess á milli. Lögð er áhersla á að vinna strax úr niðurstöðum kannananna og bregðast við eftir því sem mögulegt er. Páll segir að framkvæmdastjórn spítalans hafi frá hausti 2013 lagt höfuðáherslu á að bæta starfsumhverfið á spítalanum og netkönnun á starfsánægju frá í vor bendi til að traust og starfsánægja sé aftur á uppleið.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast tölublaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð .