Starfslokakjör Jónasar Fr. Jónssonar, fyrrverandi forstjóra Fjármálaeftirlitsins, eru í samræmi við ráðningarsamning hans frá árinu 2005. Hann fær samkvæmt starfslokasamningi laun í eitt ár frá 1. mars nk. en þá hefjast starfslok hans.

Launin eru 1.445 þúsund krónur á mánuði - en þau voru eins og kunnugt er lækkuð í byrjun árs.

Stjórn FME gerði samkomulag um starfslok við Jónas hinn 25. janúar sl., að hennar frumkvæði eins og það er orðað, en í ráðningarsamningnum er kveðið á um að hann fái laun í eitt ár verði honum sagt upp.

Segi hann hins vegar sjálfur upp fái hann laun í hálft ár, samkvæmt samningnum.

Stjórn FME gerði ráðningarsamning við Jónas þegar hann hóf störf hjá eftirlitinu og var Stefán Svavarsson, formaður stjórnar FME á þeim tíma.

Jónas hætti sem forstjóri FME þegar hann ritaði undir starfslokasamninginn. Hann sinnir hins vegar ýmsum starfsskyldum fram til 1. mars, sem fyrr sagði.