Hanna Kristín Skaftadóttir og Hjalti Kr. Melsted vinna bækurnar saman sem voru upphaflega hugsaðar fyrir drenginn þeirra sem var seinn til máltöku. Nú stefna þau á að gefa út frekara kennslu- og fræðsluefni.

Það sem upphaflega hófst sem aðferð til að hjálpa syni sínum við að auka málfærni breyttist í bókaútgáfu. Nú eru bækurnar um MiMi bráðum tíu talsins og fleiri verkefni sem bíða. Þau Hanna Kristín og Hjalti Kr. stefna einnig á að gefa út samstæðupúsl, vinnubækur og púsluspil á næstu mánuðum en þau hafa sjálf unnið allar bækurnar ásamt myndskreytingum.

Hanna Kristín er menntaður viðskiptafræðingur og Hjalti dúkari. Bækurnar hafa því verið unnar samhliða mörgum öðrum verkefnum en saman eiga þau drengina Mikael Björn (MiMi) og Benedikt Bjarna (BenBen). Í bókunum hjálpar MiMi börnum að læra orð með táknum og gerir það stundum með hjálp BenBen.

„Drengurinn okkar, þá tveggja ára, talaði ekki neitt og við vorum alltaf að leita að einhverju efni til að aðstoða hann við máltökuna því þá var árs biðlisti eftir talþjálfun og 500 krakkar á biðlista. Nú eru þau að minnsta kosti um 1000 á biðlista og eitt til tvö ár í bið.

Við fórum því að kynna okkur málið og hvað við gætum gert í millitíðinni. Þessi bið er slæm, því lengur sem þú bíður, því erfiðari er framþróunin.

Málþroskinn er grunnurinn að svo mörgu, þetta er grunnurinn að byrjun skólagöngunnar og meira að segja hefur máltaka okkar forspárgildi um hjúskaparmöguleika og aðra félagslega þróun líka samkvæmt dönskum rannsóknum. Þetta fór auðvitað í skapið á stráknum okkar, hann grét mikið á daginn og var pirraður að geta ekki tjáð sig.

Í dag, með aðstoð tákn með tali, er Mikael Björn svo gott sem altalandi. Eftir stendur þó að framundan er mikil vinna við hljóðmyndun hjá honum.“

Lesa má viðtalið í heild í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .