Samkvæmt tölum, sem birtar eru á heimasíðu Fasteignamats ríkisins, nam velta á fasteignaviðskiptum fyrstu 51 viku ársins 172 mö.kr. á höfuðborgarsvæðinu. "Þetta er mun meiri velta en allt árið í fyrra þegar hún nam 126 ma.kr. og því ljóst að um metveltu verður að ræða á fasteignamarkaði í ár enda eiga tölur einungis eftir að birtast fyrir síðustu viku ársins. Stöðug veltuaukning hefur verið á fasteignamarkaði frá árinu 2001 og á þessu ári hefur veltan að jafnaði verið 3,4 mö.kr.á viku sem er mun meira en í fyrra þegar veltan var 2,4 ma.kr. á viku að jafnaði," segir í Vegvísi Landsbankans.

Velta á fasteignamarkaði hefur stóraukist eftir innkomu viðskiptabankanna og sparisjóða á fasteignalánamarkaðinn sem aukið hefur samkeppni og leitt til hagstæðari lánamöguleika. Á þeim 16 vikum sem liðnar eru frá því nýju íbúðalánin komu til sögunar hefur veltan á fasteignamarkaði numið 75 mö.kr. en til samanburðar var hún 45 ma.kr. á sama tíma í fyrra og er því um tæplega 70% aukningu milli ára að ræða.

Byggt á Vegvísi Landsbankans.