*

föstudagur, 21. febrúar 2020
Innlent 18. ágúst 2019 08:31

Stefnir á sókn eftir lagabreytingu

Tap varð á rekstri Forlagsins ehf. á síðasta rekstrarári en það var þó talsvert minna en árið á undan.

Jóhann Óli Eiðsson
Egill á von á að geta snúið vörn í sókn á árinu.
Haraldur Guðjónsson

Tap varð á rekstri Forlagsins ehf. á síðasta rekstrarári en það var þó talsvert minna en árið á undan. Framkvæmdastjóri félagsins segir að það horfi til betri vegar í bókaútgáfu hér á landi en meginástæða þess er lagabreyting sem tók gildi um áramótin.

„Það er ljóst, eins og fjallað hefur verið um í fjölmiðlum, að róður bókaútgefenda hefur verið erfiður á liðnum árum og rekstur Forlagsins ekki farið varhluta af verulegum samdrætti í greininni. Það hefur meðal annars birst í tapi undanfarin tvö ár,“ segir Egill Örn Jóhannsson, framkvæmdastjóri og hlutaeigandi Forlagsins.

Tap síðasta árs nam rúmum 4,4 milljónum króna en var 13,3 milljónir rekstrarárið 2017. Sala nam rúmlega milljarði króna og jókst um tæpar 17 milljónir en Egill segir að aukninguna megi meðal annars rekja til aukinnar eftirspurnar eftir rafbókum. Kostnaður jókst einnig lítillega eða um níu milljónir. Skuldir drógust saman um 80 milljónir og voru tæpar 829 milljónir í árslok. Stöðugildi í árslok, umreiknuð í heilsársstörf, voru fjörutíu.

Um áramótin tóku gildi lög sem felur í sér að bókaútgefendur fá fjórðung kostnaðar, sem fellur til við útgáfu bóka á íslensku, endurgreiddan. Þar undir fellur meðal annars launakostnaður, prentkostnaður og auglýsinga og kynningarkostnaður. Lögin skulu tekin til endurskoðunar árið 2023.

„Í mínum huga munu lögin gerbreyta rekstrarumhverfi Forlagsins og bókaútgáfunnar allrar. Fljótt á litið, en með miklum fyrirvörum, mun þetta þýða að í öllu falli ættum við loksins að geta verið réttum megin við núllið,“ segir Egill.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.