Áform eru uppi um að auka hlutafé lettneska bankans Norvik Bank, áður Lateko Banka, á þessu ári. Í samtali við Viðskiptablaðið í dag er haft eftir Jóni Helga Guðmundssyni, stjórnarformanni Norvik Bank, að ætlunin sé að fylgja eftir vexti bankans með auknu hlutafé á árinu.

Jón sagði að ekki væri vitað hve stór hlutafjáraukning yrði né hvenær af henni yrði. Hann sagðist eiga von á að núverandi eigendur bankans myndu standa að henni og ekki þyrfti að leita út fyrir þann hóp. Stærsti hluthafinn í Norvik Bank er íslenska eignarhaldsfélagið Straumborg með 51,06% en það er í eigu Jóns Helga og fjölskyldu.

Gert er ráð fyrir að lánasafn bankans tvöfaldist á þessu ári og nái 450 milljónum evra eða ríflega 40 milljörðum króna. Sömuleiðis er gert ráð fyrir að eignir bankans tvöfaldist á árinu. Norvik Bank hyggst taka fjögur sambankalán á þessu ári að verðmæti 280 til 350 milljónir evra.

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag.