Mjólkursamsalan stefnir að því að innan tveggja til þriggja ára flytji hún út skyr og smjör að verðmæti um einn milljarð króna, og þar af verði hlutur skyrsins um 650 milljónir. Miðar fyrirtækið við að útflutningsmarkaðurinn nemi um 10% heildarframleiðslu hérlendis, eða sem nemur um 15 milljónum af mjólkurlítrum á ári, að sögn Guðbrands Sigurðssonar, forstjóra MS. „Við gætum eflaust selt meira ef við lækkuðum verðið en við viljum viðhalda góðu endurgjaldi til félagsmanna okkar,“ segir Guðbrandur.

Smjör flutt úr fyrir 130 milljónir í ár

Á árinu sem nú er að ljúka hafa verið flutt úr 662 tonn af smjöri, þar af á síðari helmingi ársins 442 tonn. Þetta er heldur minna smjörmagn en flutt var út í fyrra, en verðmætisaukningin er talsverð. Skýrist það einkum af tvennu, annars vegar því að á þessu ári var smjörið í auknu mæli flutt til auðugri landa Evrópu, þar sem markaðsverð er hærra, en hins vegar hefur heimsmarkaðsverð á smjöri hækkað verulega mikið á árinu. Útflutningsverðmæti smjörs á þessu ári er um 130 milljónir króna. Guðbrandur segir að innan áðurnefndra tímamarka, þ.e. 2-3 ára, geri menn sér vonir um að útflutningur smjörs nái upp undir þúsund tonn á ári.

Á fyrsta fjórðungi ársins tók gildi samkomulag á milli Íslendinga og Evrópusambandsins um að innflutningstollar á kjöti og kjötafurðum yrðu lækkaðir um 40% þann 1. mars nk., ásamt því að verulegt magn landbúnaðarvöru yrði flutt tollalaust til landsins. Samtímis fengu Íslendingar aukna tollkvóta á ýmsum landbúnaðarvörum til Evrópusambandsins, þar á meðal mjókurvörum. MS fékk 350 tonna tollfrjálsa útflutningskvóta til landa Evrópusambandsins og tók hann gildi 1. júlí sl. Safnaði fyrirtækið upp smjöri á fyrri hluta árs, vitandi að betra verð fengist fyrir það á síðari hluta ársins. Selt hefur verið einkum til Norður-Evrópu, Danmerkur og Englands, en seinustu ár hefur fyrirtækið selt á milli 500-600 tonn af smjöri til útlanda, m.a. til Rússlands, Tyrklands og Bandaríkjanna.