Forstjóri og aðrir lykilstjórnendur tölvufyrirtækisins IBM fá ekki bónusgreiðslur á þessu ári eins og stefnt var að. Ástæðan er sú að hagnaður fyrirtækisins dróst saman um 1% í fyrra. Tekjur voru á sama tíma 5% lægri en ári fyrr.

Breska ríkisútvarpið (BBC) segir verri afkomu IBM skýrast af hægari vexti í nýmarkaðsríkjum, ekki síst í svokölluðum BRIC-löndum á borð við Brasilíu, Rússland, Indland og Kína. Þar dróst sala IBM saman um 14% á milli ára í fyrra.

Hagnaður IBM nam 6,19 milljörðum dala á fjórða ársfjórðungi í fyrra sem er 6% aukning á milli ára.

BBC segir rekstur IBM einkennast nú um stundir af leigu á gagnageymslum og þjónustu til fyrirtækja sem reki tölvuský. Þetta sé vaxandi grein.