*

föstudagur, 21. janúar 2022
Innlent 7. september 2021 15:35

Stjórnir lífeyrissjóða eigi betra skilið

Gylfi Magnússon og Halldór Benjamín Þorbergsson hafa báðir komið lífeyrissjóðum landsins til varnar eftir umfjöllun Fréttablaðsins.

Ritstjórn
Gylfi Magnússon og Halldór Benjamín Þorbergsson
Haraldur Guðjónsson

„Stjórnir og forystumenn starfstengdu lífeyrissjóðanna hafa staðið frábærlega að ávöxtun eigna lífeyrissjóðanna, aðhaldi að kostnaði og þjónustu við sjóðfélaga undanfarin ár. Þeir eiga betra skilið en síendurteknar árásir, ekki síst frá aðilum innan verkalýðshreyfingarinnar,“ skrifar Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, í grein sem ber heitið „Hljóð og mynd fara saman“ og svarar þar Ragnari Þór Ingólfssyni, formanni VR, vegna ummæla hans á forsíðu Fréttablaðsins um rekstrarkostnað lífeyrissjóða.

Í grein Fréttablaðsins kom fram að rekstrarkostnaður íslenskra lífeyrissjóða hafi numið 25 milljörðum króna ári. Haft var Ragnari Þór að „í öllu falli eru of margir á spena þessa kerfis“. Hann kvartaði jafnframt yfir því að lífeyrissjóðir úthýsi eignastýringu til verðbréfasjóða og fjárfestingafélaga.

„Hér fer ekki  saman hljóð og mynd, því ef menn eru að úthýsa eignastýringu, umsýslu og ábyrgð sem því fylgir ættu sjóðirnir sjálfir að geta sparað í stjórnunar- og skrifstofukostnaði,“ segir Ragnar Þór.

Halldór segir að staðreyndirnar séu þær að íslenskir lífeyrissjóðir séu í fremstu röð hvað varðar lágan kostnað við rekstur og fjárfestingar. Hann telur besta mælikvarðann á það hvort rekstrarkostnaður og fjárfestingaútgjöld séu eðlileg sé samanburður við sambærilega lífeyrissjóði erlendis og birtir eftirfarandi mynd sem styðst við tölur frá OECD.

Á myndinni má sjá að kostnaður við rekstur hafi verið um 0,17% af heildareignum íslensku lífeyrissjóðanna og fjárfestingakostnaður 0,06% eða samtals 0,23% að meðaltali á árunum 2015-2019. Hlutfallið var ögn lægra í Hollandi (0,17%), Þýskalandi (0,20%) og Danmörku (0,21%) en nokkuð hærra í Noregi (0,28%), Finnlandi (0,50%) og Sviss (0,57%).

Jafnframt segir Halldór að rekstrarkostnaður sem hlutfall af eingum hafi lækkað úr 0,18%-0,19% árin 2016-2018 í 0,16% árið 2019. Þá hafi fjárfestingarkostnaður verið á bilinu 0,04%-0,05% sem hlutfall af eignum en til samanburðar var hlutfallið 0,10%-0,13% á árunum 2010-2015.

Lægri rekstrarkostnaður en hjá Landsbankanum

Þá hefur Gylfi Magnússon, forseti Viðskiptafræðideildar HÍ, tjáð sig um málið en hann segir í Facebook færslu að svona tölur þurfi að setja í samhengi.  

„Rekstrarkostnaður lífeyrissjóðanna var skv. þessu um 0,4% af heildareignum þeirra. 25 milljarðar er örlítið lægri upphæð en rekstrarkostnaður Landsbankans eins. Lífeyrissjóðirnir eru tæplega ferfalt stærri samanlagt en Landsbankinn, sé miðað við efnahagsreikning.“

Jafnframt bendir Gylfi á frétt Financial Times þar sem fram kemur að breskir lífeyrissjóðir með skilgreindum réttindum (e. defined benefit) sem úthýsa eignastýringu greiða um 0,65% af eignum til eignastýringarfyrirtækja.