Tæknifyrirtækið Stjörnu-Oddi hefur nú auglýst eftir nýjum starfskröftum sem koma til viðbótar nýráðningum á síðasta ári. Að sögn Sigmars Guðbjörnssonar, stofnanda og framkvæmdastjóra félagsins, hefur það ávallt lagt mikla áherslu á að skila hagnaði á sama tíma og stefnt er að innri vexti. Sigmar sagði að  undanfarin fimm ár hefði reksturinn skilað hagnaði og sagðist hann reikna með að árið 2009 verði einnig hagnaður sem verður þá sjötta árið í röð ein sog kom fram í síðasta Viðskiptablaði.

. "Þessari stefnu okkar er ekki ætlunin að víkja frá. Vöxtur hefur kannski verið hægari fyrir vikið en félagið í umhverfi dagsins í dag er í góðum málum. Núna erum við að koma meira fram á sviðið og taka áhættur, fjölga starfsfólki, auka sölu og markaðsetningu, aukum þátttöku í fagsýningum. Markaðsetning á netinu hefur skilað okkur góðum árangri og verður því áfram fylgt eftir," sagði Sigmar.

Fyrirtækið Stjörnu-Oddi er þekktast hérlendis fyrir hönnun og framleiðslu á rafeindamerkjum sem  nota  má bæði til atferlisrannsókna á fiskum og til sjálfstæðra mælinga á umhverfis þáttum á baujum eða veiðarfærum. Nú hefur verið bætt við nýjum skynjara í slík merki sem nemur segulsvið jarðar.