Lækningavörufyrirtækið Kerecis kynnir í þessari viku rannsóknaniðurstöður sem styrkja enn frekar vísindalegan grunn fyrir tækni fyrirtækisins. Niðurstöðurnar verða birtar á herlæknaþingi bandaríska varnarmálaráðuneytisins sem haldið er í vikunni í Fort Lauderdale í Florída. Þetta kemur fram í tilkynningu frá fyrirtækinu.

Þar segir að rannsóknirnar hafi verið unnar meðal annars í samstarfi við Rannsóknamiðstöð bandaríska sjóhersins og Sárarannsóknaseturs bandaríska landhersins. Rannsóknarniðurstöður Kerecis sem kynntar verða á ráðstefnunni sýna að vefjaviðgerðarefni Kerecis laði að sér frumur og stofnfrumur líkamans sem búi um sig í stoðefninu og stuðli þar að endursköpun hins skaðaða vefs.

Fram kemur í rannsókninni að 162 sár hafi verið meðhöndluð með Kerecis Omega3 og samkeppnisvöru í blindaðri slembirannsókn. Sár meðhöndluð með Kerecis Omega3 greru allt að tvisvar sinnum hraðar en sár sem voru meðhöndluð með samkeppnisvörum. Þá var Kerecis Omega 3 notað sem viðgerðarefni á heilabasti, vefjarins milli heila og höfuðkúpu, í dýrarannsókn og sýndu niðurstöðurnar að frumur líkamans vaxa inn í efnið og endurskapa hið skaðaða heilabast.

Tæknin leggur mikilvæg lóð á vogarskálarnar

„Aukin notkun á heimagerðum sprengjum í vopnuðum átökum hefur leitt til fjölgunar á erfiðum brunasárum og hærri dánartíðni særðra. Til að bjarga mannslífum og auka lífsgæði þeirra sem fengið hafa sár er mikilvægt að fram komi bætt meðhöndlunarúrræði og teljum við að tækni okkar leggi þar mikilvæg lóð á vogarskálarnar,“ segir Hilmar Kjartansson bráðalæknir og yfirmaður klínískra rannsókna og þróunar hjá Kerecis.

Vefjaviðgerðarefni Kerecis er affrumað Omega3-ríkt þorskroð. Við notkun er roðbúturinn lagður ofan í vefjaskaðann og vaxa þá heilbrigðar frumur líkamans inní efnið. Frumurnar hefja þar uppbyggingu á nýjum líkamsvef á meðan að efni Kerecis brotnar hægt niður.

„Þegar sár gróa á náttúrulegan máta kallar líkaminn á stofnfrumur úr beinmerg líkamans í sárið, heilbrigðar frumur leita jafngramt í sárið frá sárabörmunum,” segir Baldur Tumi Baldursson húðlæknir og yfirmaður lækninga hjá Kerecis. „Á herlæknaþinginu kynnum við m.a. niðurstöður sem sýna að frumur og stofnfrumur líkamans leita inní efnið okkar og dafna þar. Þetta staðfestir að efnið okkar hefur einstæða eiginleika sem styðja við náttúrulegan gróanda á sárum".