Björn Brynj­úlfs­son, for­maður Sam­taka gagna­vera, segir það á­kaf­lega sér­stakt að for­sætis­ráð­herra tali á er­lendum vett­vangi eins og það eina sem gagna­ver á Ís­landi gera sé að þjónusta aðila sem grafa eftir raf­myntum.

Katrín Jakobs­dóttir for­sætis­ráð­herra var í við­tali á Financial Times um mat­væla­öryggi og orku­mál. Katrín sagði gagna­ver vera taka mikil­væga orku frá heimilum og öðrum iðnaði. FT hefur eftir Katrínu að Bitcoin sé vanda­mál víða um heim en gagna­ver á Ís­landi nota tölu­vert mikið af grænni orku landsins.

„Bitcoin og raf­myntir, sem nota mikið af orkunni okkar, eru ekki hluti af okkar mark­miðum,“ sagði Katrín.

Árleg fjárfesting um milljarður

Björn segir að að þetta sé ekki í sam­ræmi við þróunina og stöðu gagna­vers­iðnaðar hér á landi sem sinni í dag fjöl­breyttri þjónustu.

„Það eru allir núna að vinna að því að byggja upp vinnslu­getu fyrir gervi­greind og slíkt. Öll þessi raf­mynta­um­ræða er smá partur af for­tíðinni,“ segir Björn.

Upp­bygging gagna­vera hefur verið mikil hér­lendis undan­farin ár og ár­leg fjár­festing í geiranum nemur milljörðum króna. Þá eru á­form um milljarða fjár­festingar til við­bótar á næstu misserum.

Helstu tækni­fyrir­tæki heims á borð við Goog­le, Micros­oft og Meta hafa komið sér fyrir á hinum Norður­löndunum en þar hefur upp­bygging gagna­vera átt sér stað síðast­liðinn ára­tug með stuðningi þar­lendra stjórn­valda.

Viðtalið við Katrínu fór í mest lesið hjá FT.
Viðtalið við Katrínu fór í mest lesið hjá FT.

Yfir­lýst mark­mið ís­lenskra stjórn­valda eða auka er­lenda fjár­festingu hér­lendis. Spurður um hvort um­mæli for­sætis­ráð­herra í Financial Times gætu haft nei­kvæð á­hrif á slíkt fyrir gagna­ver segir Björn stöðug­leika mikil­vægan fyrir geirann.

„Ég held það gríðar­lega mikil­vægt þegar það koma er­lendar fjár­festingar inn til landsins að það ríki á­kveðinn stöðug­leiki,“ segir Björn.

„Ég held að al­mennt séu fjár­festar í gagna­vers­iðnaði hér með þá sýn að veita fjöl­breytta þjónustu til flóru af kúnnum sem eru í alls kyns starf­semi þó að megin­þunginn sé gervi­greind sem er í miklum vexti þessa dagana.“

Við­skipta­vinir gagna­vera á Ís­landi eru m. a. inn­lend og er­lend fjár­mála­fyrir­tæki, net­fyrir­tæki, veitu- og inn­viða­fyrir­tæki, aðilar sem standa að rekstri gervi­tungla, fyrir­tæki í lyfja­iðnaðinum, bíla­fram­leið­endur og upp­lýsinga­tækni­fyrir­tæki.

„Fyrir gagna­ver eru þrír lykil­þættir sem skipta nánast öllu máli. Það eru net­tengingar og öryggi á þeim. Það eru orku­mál, að­gengi að orku og ekki skemmir fyrir ef orkan er græn. Svo er það stöðugt við­skipta­um­hverfi sem hægt er að reiða sig á,“ segir Björn.

„Það hefur verið á brattann að sækja hjá okkur á fleiri en einu sviði hvað þetta varðar,“ segir Björn að lokum.