Enginn stofnenda samfélagsmiðilsins Twitter vinnur lengur hjá fyrirtækinu. Í raun munaði minnstu að fyrirtækið kæmist aldrei almennilega á legg. Það gerðist ekki fyrr en hluthafar fyrirtækisins gripu í taumana.

Á þessum nótum er umfjöllun bandaríska dagblaðsins The Wall Street Journal um tilurð Twitter í tengslum við undirbúning að skráningu fyrirtækisins á markað.

Þar er rifjað upp að sama gilti um Twitter og mörg sprota- og nýsköpunarfyrirtæki að það varð til upp úr hliðarverkefni starfsmanna hjá öðru fyrirtæki. Blaðið segir Evan William, fyrsta forstjóra Twitter, og Jack Dorsey, sem stofnuðu Twitter á sínum tíma með tveimur öðrum félögum sínum, vart geta ræðst við í dag. Biz Stone, sem stofnaði fyrirtækið hvarf á braut árið 2011 og stofnaði annað fyrirtæki með Williams. Fjórði stofnandinn var þá þegar horfinn á braut.

The Wall Street Journal segir þetta ekki óvenjulegt enda aðeins tæpur helmingur stofnenda fyrirtækja enn á launaskrá hjá þeim þegar þau eru skráð á markað. Vísað er til könnunar frá árinu 2008.