Á fundi stofnfjáreigenda í Sparisjóði Vestmannaeyja á mánudagskvöld var samþykkt að auka stofnfé sjóðsins í 1.004 milljónir króna, með tilkomu Seðlabankans, Vinnslustöðvarinnar, Vestmannaeyjabæjar og Lífeyrissjóðs Vestmannaeyja. Jafnframt var samþykkt að lækka eldra stofnfé um 72%. Er Seðlabankinn þar með orðinn stærsti stofnfjáreigandi Sparisjóðs Vestmannaeyja með 55%. Auk Sparisjóðs Vestmannaeyja njóta Sparisjóður Norðfjarðar, Sparisjóður Bolungarvíkur, Sparisjóður Svarfdæla og Sparisjóður Þórshafnar góðs af aðstoð ríkisins.