„Þetta er með svo miklum ólíkindum að við vitum ekki hvað við eigum að segja,“ segir Páll Benediktsson um kröfu Stones Invest á hendur Landic Property.

Stones Invest hefur lagt fram kröfu að upphæð 30 milljónir danskra króna á hendur Landic Property.

„Þeir eru að gera kröfu í eitthvað sem þeir eiga enga kröfu í. Þetta sýnir hvaða ástand er orðið á Stones Invest og hvað þeir eiga í miklum erfiðleikum,“ segir hann.

Í ljós er komið að 30 milljóna krafan á ekki við nein rök að styðjast því Stones gerir kröfu til fjármuna sem það hefur aldrei átt.

„Þetta er lögfræðilegt skipbrot hjá þeim og sýnir að það er gripið til þess án þess að skoða málið,“ segir Páll.

Landic Property hefur lagt fram kröfu í dönskum skiptarétti um að fjárfestingarfélagið Stones Invest verði tekið til gjaldþrotaskipta, og segir Páll að 30 milljóna krafan sé taugaveiklunarviðbrögð við því.

„Nú hefur komið fram að aðrir aðilar eru á barmi þess að gera kröfur á þá,“ segir Páll.

Danska viðskiptablaðið Börsen greinir meðal annarra frá þessu í gær. Þar segir stjórnarformaður Stones Invest að krafa Landic Property um gjaldþrotaskipti eigi ekki við rök að styðjast, en að framtíð fyrirtækisins sé í höndum banka.