Það skiptir máli fyrir þá sem halda á og eiga viðskipti með skuldabréf, verðtryggð íbúðabréf og óverðtryggð ríkisbréf, hvað Seðlabankinn gerir við skuldabréfastabbann sem hann fær upp í hendurnar frá Seðlabankanum í Lúxemborg eins og greint var frá í morgun. Már Guðmundsson seðlabankastjóri sagði á blaðamannafundi að ekkert hefði verið ákveðið með það. Skuldabréfin færu inn í eignarhaldsfélag Seðlabankans (ESÍ ehf.) þar sem bankinn geymdi fleiri skuldabréf.

Á fundinum í morgun kom fram að 80 milljarðar króna af þeim krónueignum sem Seðlabankinn keypti af evrópska seðlabankanum í Lúxemborg væru skuldabréf gefin út af ríkissjóði (ríkisbréf) eða með ábyrgð hans (íbúðabréf). Það er að nafnvirði. Það gefur auga leið að ef þessi bréf eru seld á markaði eykst framboðið gríðarlega sem rýrir verðmæti þeirra bréfa sem þegar eru á markaðnum samkvæmt lögmálum um framboð og eftirspurn. Það eru því miklir hagsmunir í húfi.

Talið er ólíklegt að af þessu verði. Már sagði að ef eitthvað yrði gert við skuldabréfin, annað en að geyma þau í hirslum ESÍ ehf. yrði það gert í opnu og gegnsæju ferli.

Þrálátasti orðrómurinn var að lífeyrissjóðir myndu kaupa þessi bréf á afslætti og gætu þannig pumpað hressilega upp tryggingafræðilegan uppreikning, sem veitir ekki af þegar allir eru að berjast við að ná þessari árlegri 3,5% raunávöxtun. Á móti myndu þeir greiða með í evrum sem færi í að greiða vexti og afborganir af 402 milljóna króna evruláninu sem notað var til að borga fyrir skuldabréfin. Már sagði aðspurður að ekkert hefði verið rætt við lífeyrissjóðina um þessi mál.