Stjórnvöld á evrusvæðinu undirbúa stórtækar lántökur á lánsfjármörkuðum í þessum mánuði með það að markmiði að dæla fjármagni inn í óburðug hagkerfi landanna. Financial Times segir að lánsfjárkreppan hafi af þeim sökum færst á alvarlegra stig. Það gæti haft þær afleiðingar að þau hagkerfi sem standa veikast geti í framhaldinu átt erfitt með að fá peninga að láni.

Stjórnvöld á evrusvæðinu áætla að gefa skuldabréf að upphæð 80 milljarða evra í september miðað við 43 milljarða í ágúst. Sem dæmi ætlar Spánn að fá 7 milljarða evra að láni en í ágúst tóku spænsk stjórnvöld 3,5 milljarða að láni. Þessi mikla eftirspurn stjórnvalda eftir lánsfé kemur illa við ríki eins og Spán, Portúgal og Írland, sem eru þau ríki sem fjárfestar hafa mestar áhyggjur af. Grikkland er ekki talið upp í frétt FT þar sem búið er að veita ríkisstjórninni neyðarlán til að standa við skuldbindingar sínar.

Haft er eftir Padhraic Garvey hjá ING Financial Markets að þetta valdi áhyggjum yfir að ríkjunum mistakist að afla þess fjár sem þau þurfi. Hann spyr hvort fjárfestar eru tilbúnir að kaupa skuldir þeirra. Hann geti ekki séð það.