Strax hefur opnað Farsímalagerinn að Miðhrauni 14 í Garðabæ. Þar verða farsímar og aukabúnaður á heildsöluverði og mun lægri verðum en áður hafa þekkst á Íslandi segir í tilkynningu félagsins.

Í frétt félagsins kemur fram að engum eigi að dyljast að verð á farsímum og farsímabúnaði er hátt á Íslandi. Kjartan Örn Sigurðsson, framkvæmdastjóri Strax á Íslandi, segir í tilkynningunni að ástæðan fyrir þessu háa verði á símabúnaði hljóti að vera sú að erlendir birgjar hafi nýtt sér fákeppnisástand á markaðnum og rukkað innlenda birgja um hærri verð en þekkjast annarsstaðar í Evrópu.

Selja farsímabúnað í þremur heimsálfum

Strax Holdings, sem er félag í meirihlutaeigu Íslendinga, er með rekstur í 11 löndum í þremur heimsálfum og sérhæfir sig í dreifingu á aukabúnaði fyrir farsíma og farsímum frá öllum helstu framleiðendum. Meðal viðskiptavina Strax eru stór farsímafyrirtæki m.a. O2 í Bretlandi, TDC í Danmörku, Orange í Hollandi og nýverið gerði félagið heildarbirgjasamning við T-Mobile, stærsta farsímafyrirtæki Þýskalands.


Farsímalagerinn er til húsa við hliðina á Marel í húsnæði Strax í Miðhrauni 14 og verður lágmarks yfirbygging höfð að leiðarljósi til að tryggja lægstu verð segir í tilkynningunni.

Farsímalagerinn er opinn frá kl 12-18 alla virka daga og 12-16 á laugardögum. Miðhraun 14 er við hliðina á Marel, rétt hjá Ikea, og nýverið opnaði Sappos skóverslun í sama húsnæði. Heimasíða Farsímalagersins er www.farsímalagerinn.is og þar getur fólk borið saman verð á einstaka vörum við BT, Elko, Símann, Vodafone o.fl. á lifandi hátt á hvejum degi. Hægt er að versla allan sólarhringinn á heimasíðunni.