Yfirvöld í Bretlandi og Bandaríkjunum rannsaka nú meint brot breska flugfélagsins British Airways á lögum gegn auðhringjum. Bréf í BA lækkuðu í verði um 5% við þau tíðindi. Rannsóknin beinist að verðlagningu flugmiða, m.a. álagi á verð vegna eldsneytiskostnaðar, að sögn BA. Virgin Atlantic og American Airlines hafa einnig tilkynnt að þau muni veita yfirvöldum samstarf í annarri rannsókn.

Allianz segir upp fjölda starfsmanna

Evrópska tryggingafélagið Allianz tilkynnir að það hyggist fækka störfum um 7.480 á næstunni, en aðgerðirnar eru hluti af víðtækum niðurskurði og aðhaldi í rekstri sem tilkynnt var um á síðasta ári.

Pöntunum á evrusvæðinu fækkar

Pöntunum til verksmiðja á evrusvæðinu fækkaði áfram í apríl, en iðnaðarpantanir minnkuðu um 0,2% frá marsmánuði. Þeim fjölgaði hins vegar um 4,4% frá apríl á síðasta ári. Hagfræðingar höfðu búist við því að þeim fjölgaði um 1,8% milli mánaða og 10,8% frá sama mánuði 2005.

Iðnframleiðsla í Bretlandi eykst

Iðnframleiðsla í júní í Bretlandi hefur ekki verið meiri síðan í febrúar 2005, að sögn Samtaka iðnframleiðenda þar í landi. Mælikvarðinn sem samtökin nota er jákvæður um 14 stig í mánuðinum, en sérfræðingar höfðu búist við +8.

Meðlimur í peningamálastefnuráði breska seðlabankans deyr

Seðlabanki Bretlands tilkynnir að David Walton, sem var í peningamálastefnuráði bankans og átti sem slíkur þátt í að ákveða stýrivaxtastig þar í landi, hafi látist. Dauði hans var óvæntur og kom eftir skammvinn veikindi.

Norður-Kóreumenn vara Bandaríkjamenn við

Ráðamenn Norður-Kóreu vara við því að hætta geti verið á að til átaka komi í lofti vegna meints flugs bandarískra njósnavéla yfir landinu. Leyniþjónustur Vesturlanda fylgjast náið með athöfnun Norður-Kóreumanna, sem talið er að hyggist prófa kjarnorkueldflaugar.

Gassamningur Rússa og Úkraínumanna hugsanlega endurskoðaður

Yulia Tymoshenko, sem í fyrrakvöld var ákveðið að yrði nýr forsætisráðherra Úkraínu, segir að hið umdeilda gassamkomulag sem náðist við Rússa í fyrra eigi að endurskoðast.

Kýpurbanki býður betur í Emporiki

Kýpurbanki býður reiðufé og hlutabréf upp á u.þ.b. 3,8 milljarða evra í Emporiki bankann í Grikklandi, til að koma í veg fyrir að Credit Agricole kaupi þennan fjórða stærsta banka Grikklands. Hlutabréf í Agricole hækka um 1,5% við tíðindin.

Gazprom fer inn á gasmarkaðinn í Bretlandi

Deild innan Gazprom, Gazprom Marketing and Trading, fer inn á gasmarkað fyrir bresk fyrirtæki og hefur samkeppni við Centrica, RWE og E.On með því að gera tvo stóra samninga.

Lafarge hækkar vaxtartakmark

Lafarge hækkar vaxtartakmark ársins 2008 upp í 10%, úr 8%. Hlutabréf í félaginu hækka um 3% við tíðindin, en vextinum hyggst það ná með niðurskurði, eignasölu og yfirtökum.