Starfsmenn Suðurverks vinna nú að því að selflytja 600 þúsund rúmmetra af grjóti úr námu á Seljalandsheiði austan Markarfljóts. Verður grjótið síðan nýtt í varnargarða við hina nýju Landeyjahöfn.

„Við byrjuðum á að leggja veginn upp á fjallið að námunni. Þar erum við að vinna grjótið sem allt er sprengt og flokka það og keyra niður í farveg Markarfljóts. Síðan ætlum við að veita fljótinu austur fyrir þegar við förum með þetta grjót áfram niður í fjöru og keyrum því út í garðana við Landeyjahöfn,” segir Dofri Eysteinsson framkvæmdastjóri Suðurverks.

Dofri er svo sem ekki ókunnugur á þessum slóðum því sem ungur drengur var hann sjö sumur í sveit á Dalseli. Þá rak hann kýr á beit í grashólmum á því svæði þar sem fyrirtæki hans mun nú leggja nýjan veg niður í Landeyjahöfn í Bakkafjöru. Eitthvað sem hann óraði ekki fyrir við störf sín sem kúasmali á sínum tíma.

„Sem stendur starfa um 90 manns á svæðinu á vegum Suðurverks. Unnið er allan sólarhringinn á þrískiptum vöktum. Unnið er tólf daga í einu og síðan fá menn sex daga frí.

Ætli við séum ekki búnir að keyra hátt í 250 þúsund rúmmetrum af þeim 600 þúsund rúmmetrum sem við þurfum að flytja. Nú erum við að bæta við okkur tækjum til að koma meiri skrið á þetta."