Seltjarnarnesbær mun setja upp sýndartölvur í kennslustofum í grunnskólum bæjarins. Alls verða settar upp 56 sýndartölvur í Mýrarhúsaskóla og Valhúsarskóla. Lausnin er unnin í samvinnu við upplýsingatæknifyrirtækið Nýherja.

Með sýndarvélum geta kennarar dreift og miðlað kennsluefni til nemenda í kennslustundum í gegnum eina móðurtölvu. Sýndartölvur eru umhverfisvænni þar sem þær nota minna rafmagn en hefðbundnar borðtölvur auk þess sem öllu viðhaldi er sinnt miðlægt frá einum stað. Sýndartölvur eru ekki með stýrikerfi, diska, minni eða örgjörva og eru einungis birtingalag fyrir gögn. Öll vinnsla, kerfi, þjónusta og hugbúnaður fer fram á netþjóni og því fara engin gögn úr kerfisrýminu.

„Með sýndarvélum er hægt að dreifa upplýsingum og gögnum með markvissum hætti og auka skilvirkni, til dæmis í kennslutímum. Þá er rekstrarkostnaður við slíkan búnað lægri, skólar þurfa ekki að greiða neinn uphafskostnað fyrir vélbúnað og leyfisgjöld eru lægri. Þannig er hægt að endurnýja tölvubúnað hraðar en áður. Sýndarvélar eru því ódýrari kostur fyrir stofnanir og fyrirtæki,“ segir Anton M. Egilsson, lausnaráðgjafi hjá Nýherja.