Rúm vika er síðan Ísland aflétti efnahagslegum og fjárhagslegum þvingunaraðgerðum gegn Íran. Þvingunaraðgerðirnar sem voru felldar niður varða meðal annars fjármagnshreyfingar og banka- og tryggingamál. Fleiri lönd hafa fellt niður þvinganir gegn Íran í kjölfar þess að Alþjóðakjarnorkumálastofnunin staðfesti að landið uppfyllti skuldbindingar sínar samkvæmt samkomulagi við stórveldi heims sem skrifað var undir síðasta sumar.

Talsverður óbeislaður jarðvarmi er í Íran. Framkvæmdir við fyrsta jarðvarmaorkuver landsins standa nú yfir, en um er að ræða 50 megavatta áfanga. Nokkur íslensk jarðvarmafyrirtæki hafa á undanförnum árum haslað sér völl á heimsmarkaði og hafa þau starfað við verkefni í fjölda landa um allan heim.

Þar á meðal er Reykjavík Geothermal og staðfestir Guðmundur Þóroddsson, forstjóri fyrirtækisins, að aflétting þvingunaraðgerða gegn Íran skapi tækifæri. „Við höfum svo sem engar áætlanir um að fara þangað inn neitt með hraði. En það hefur hins vegar verið lokað út af viðskiptaþvingunum. Þar eru mikil tækifæri, lítið verið gert og töluverðir peningar til fjárfestinga,“ segir Guðmundur.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér .