*

miðvikudagur, 28. júlí 2021
Innlent 2. október 2014 07:42

Tæp hundrað mál enn í rannsókn

Sérstakur saksóknari hefur 96 mál enn til rannsóknar, en þar af eru 39 mál tengd hruninu.

Ritstjórn
Birgir Ísl. Gunnarsson

„Það verður bara að segjast eins og er, að það er mjög bagalegt að fá niðurskurðinn á þeim tíma þar sem við erum að keppast við að reyna að ljúka þessu annars vegar og hins vegar þar sem við er að taka mannaflsfrek málsmeðferð fyrir dómi,“ segir Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari, í samtali við Morgunblaðið. Þar er greint frá því að embættið hafi enn 96 mál til rannsóknar, en þar af séu 39 hrunmál sem stefnt sé á að ljúki fyrir dómi.

Ólafur segir uppsagnir átta starfsmanna og lausn átta lögreglumanna frá embætti í vikunni muni tvímælalaust hafa áhrif. Mikil vinna liggi að baki þeim málum sem hafi endað fyrir dómi og ekki hafi dregið úr álaginu hjá embættinu. Segist hann því hafa verulegar áhyggjur af því að draga muni úr framleiðni og mál dragist á langinn vegna fækkunarinnar.