Í kjölfar sigurs Demókrataflokksins í þingkosningum í Bandaríkjunum má vænta aukinna afskipta ríkisins af lyfjafyrirtækjum, olíu- og gasframleiðendum og verktökum sem vinna fyrir ríkið, á borð við Halliburton, segir í frétt Financial Times.

Hlutabréf í lyfjafyrirækjum á borð við Merck og Schering-Plough hafa lækkað í kringum kosningarnar, en hlutabréfamarkaðir Bandaríkjanna hafa þó hækkað, sem endurspeglar það mat að Demókrataflokkurinn muni snúa sér sérstaklega að ákveðnum geirum í reglugerðabreytingum.

Í kosningabaráttunni lýstu frambjóðendur Demókrataflokksins áhuga á að gera breytingar á heilbrigðisáætluninni Medicare. Með lagabreytingum yrði ríkisstjórninni gefið vald til að stýra lyfjaverði, sem muni þá hafa ótvíræð áhrif á afkomu lyfjafyrirtækja. Demókratar munu einnig leggja mikla áherslu á aðra orkugjafa en olíu og gas, en metafkoma og skattaskil þeirra fyrirtækja verða einnig tekin til grannskoðunar. Verktakafyrirtæki sem hafa unnið fyrir ríkisstjórnina verða einnig tekin til skoðunar, en fyrirtæki á borð við Halliburton og Bechtel, sem hafa starfað í Írak hafa sérstaklega verið gagnrýnd í því samhengi. Milljarðar Bandaríkjadala hafa runnið til þeirra úr vösum skattborgara.

Þó svo að vinstrisinnaðir demókratar hafi tryggt sér sæti í mikilvægum nefndum þingsins, telja sérfræðingar að nýja þingið muni fara hóflega í lagasetningar. Talið er að miðjumenn flokksins muni vega þar á móti og að stórkostlega íþyngjandi lagasetningum á fyrirtæki verði neitað af George W. Bush Bandaríkjaforseta.