Sjálfseignarstofnunin Tantra Temple, eða Tantrahofið, skilaði 265 þúsund króna hagnaði á síðasta ári. Þetta er viðsnúningur frá árinu 2013, en þá skilaði félagið tapi sem nam 98 þúsund krónum. Þetta kemur fram í nýbirtum ársreikningi fyrirtækisins.

Fyrirtækið starfrækir nuddstofu í Grafarvogi og sérhæfir sig í tantranuddi. Á vefsíðu Tantrahofsins segir meðal annars að einn þáttur í tantra kenni þeim sem það stundi að nota kynorku sem tæki til að ná hæstu alsælu í samruna við ástvin. Í tantra sé erótískur samruni karls og konu verkfæri til að víkka meðvitundina til að ná hugarástandi alheimsvitundar.

Seldi nuddþjónustu fyrir 7,2 milljónir

Á vefsíðunni er boðið upp á nudd fyrir konur, karlmenn og pör. Venjulegt 1,5 klukkustunda nudd kostar 27 þúsund krónur fyrir konur og karlmenn, en verð fyrir fjórar hendur kostar hins vegar 45 þúsund krónur. Samkvæmt ársreikningi fyrirtækisins námu tekjur vegna sölu á vöru og þjónustu 7,2 milljónum króna á síðasta ári. Sé miðað við að allir nuddþegar hafi fengið tveggja handa nudd má gera ráð fyrir að nuddloturnar hafi verið 264 talsins á árinu.

Tekið er skýrt fram á vefsíðunni að ekki sé um kynlífsþjónustu að ræða. Nuddið sé „body-to-body“ tantranudd þar sem nuddarinn snerti allan líkamann með höndum auk mismunandi hluta líkama síns. Nuddið feli ekki í sér neitt nudd á „lingam“, sem sé sanskrít orðið fyrir getnaðarlim, eða kynfærum en sé heillíkamsnudd sem auki næmi og getu til að upplifa munúð.

Samkvæmt efnahagsreikningi Tantrahofsins námu eignir þess 1,7 milljónum króna í lok ársins, og jukust um rúmlega 100 þúsund krónur á milli ára. Skuldir voru 1,1 milljón króna og var eigið fé félagsins því 650 þúsund krónur í árslok.