Eimskip tapaði 800 þúsund evrum eða sem nemur 123 milljónum króna á fyrstu þremur mánuðum ársins. Þetta er nokkuð viðsnúningur frá sama tíma í fyrra þegar hagnaður skipaflutningafélagsins nam 2,5 milljónum evra eða í kringum 380 milljónir íslenskra króna.

Fram kemur í uppgjöri Eimskips að rekstrartekjur námu 104,2 milljónum evra á ársfjórðungnum sem var 1,1 milljón evra minna en á sama tíma í fyrra. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBTIDA) nam sex milljónum evra sem var 1,2 milljónum minna en í fyrra.

Í uppgjörstilkynningu er haft eftir Gylfa Sigfússyni, forstjóra Eimskips, að afkoman sé í samræmi við væntingar. Ánægjulegt sé að sjá að flutningsmagn hafi aukist. Í áætlunarsiglingum hafi það aukist um 11,1% frá fyrsta ársfjórðungi í fyrra. Aukningin var á öllum markaðssvæðum nema í útflutningi frá Íslandi. Það skýrist af lélegri loðnuvertíð. Þá höfðu verkfallsaðgerðir undirmanna á Herjólfi neikvæð áhrif á tekjur tímabilsins vegna ferða sem féllu niður.

Landið að rísa

Þá segir Gylfi að innflutningur til Íslands hafi aukist á bifreiðum og byggingavörum sem hafi staðið í stað á undanförnum árum.

„Óhagstæð veðurskilyrði í janúar og febrúar höfðu þau áhrif að viðkomuáætlanir skipanna fóru úr skorðum og leiddi það til aukinnar olíunotkunar og kostnaðar vegna yfirvinnu. Undir lok mars 2013 jók félagið við afkastagetu í gámasiglingum með því að bæta við einu skipi, en aukinn kostnaður vegna breytingarinnar var óverulegur fyrsta ársfjórðungi síðasta árs. Ánægjulegt er að sjá að þessi aukna afkastageta styður við aukningu í flutningsmagni á fyrsta ársfjórðungi þessa árs. Loks hefur samdráttur í útflutningi á loðnu á sama tíma og innflutningur hefur aukist valdið ójafnvægi í flutningakerfinu með auknum kostnaði vegna tilfærslu á tómum gámum,“ segir hann og bætir við:

„Það er jákvætt að sjá að innflutningur til Íslands er að vaxa og eru það jákvæð merki um að land sé að rísa. Við gerum ráð fyrir að sjá útflutning aukast á komandi mánuðum með tilkomu veiða á makríl í lögsögu Grænlands, Íslands, Færeyja og Noregs.“