Iceland Seafood International tapaði 350 þúsund evrum á þriðja ársfjórðungi ársins, sem samsvarar um 56,5 milljónum íslenskra króna. Tapið lækkaði þó um ríflega 35% milli ára, en á sama tíma fyrir ári nam það 539 þúsund evrum, eða 87 milljónum íslenskra króna.

Tekjurnar á tímabilinu lækkuðu um 0,3% milli ára, en þær námu 95,7 milljónum evra á þriðja ársfjórðungi í ár, en á sama tíma fyrir ári námu tekjurnar 96 milljónum evra. Eins og Viðskiptablaðið sagði frá í morgun keypti félagið þriðjungshlutinn sem upp á vantaði í dótturfélagi sínu á Írlandi samhliða því að keypt var starfsemi annars félags um framleiðslu á reyktum laxi í landinu.

Tekjur Iceland Seafood International á fyrstu níu mánuðum ársins lækkuðu um 14,1% frá sama tíma fyrir ári, úr 321,6 milljónum evra í 276,2 milljónir evra. Rekstrargjöldin lækkuðu á sama tíma um 13,2%, úr 309,4 milljónum evra í 268,5 milljónir evra.

Hagnaður félagsins af venjulegum rekstri á fyrstu níu mánuðum ársins nam 2 milljónum evra sem er samdráttur um 67% frá sama tíma í fyrra þegar hann nam 6,1 milljón evra. Fyrir skatt nam hagnaðurinn 3 milljónum evra á níu mánaða tímabilinu í ár en 7,7 milljónum evra á sömu níu mánuðum ársins í fyrra.

Samkvæmt IFRS stöðlum þar sem tekið er tillit til kostnaðar vegna yfirtöku á félaginu Elba og frekari fjárfestingum í Bretlandi og væntrar sölu á eignum á Spáni, er hagnaðurinn hins vegar 961 þúsund evrur á árinu nú en tæplega 4,3 milljónir evra fyrir ári síðan. Það þýðir að hagnaðurinn hafi dregist saman um 77,6% milli ára úr sem nemur 691,4 milljónum í 155,2 milljónir króna.

Stjórnunarkostnaður lækkað umtalsvert

Eigið fé félagsins jókst um 2,7% það sem af er ári, úr 80,2 milljónum evra í 82,4 milljónir evra, meðan skuldirnar jukust um 13,9%, úr 129,2 milljónum evra í 147,2 milljónir evra. Þar með jukust eignirnar um 9,6%, úr 209,5 milljónum evra í 229,6 milljónir evra, svo eiginfjárhlutfallið lækkaði um 2,4%, úr 38,3% í 35,9%.

Í tilkynningu segir að eftir erfitt tímabil á öðrum ársfjórðungi hafi sala félagsins aukist smátt og smátt á þriðja ársfjórðungi og náð nokkurn veginn sama tímabili ári fyrr. Aukið flækjustig í birgðalínum dró úr hagnaði á fyrstu níu mánuðum ársins, og nefnir félagið þar sérstaklega argentínska rækju og skelfisktegundir frá suður Evrópu.

Hins vegar hafi hagnaðarhlutfallið af þorskvörum haldist sterkt, þó þar hafi einnig verið smávegis lækkun milli ára. Síðan hafi stjórnunarkostnaður lækkað um 1,3 milljón evrur á milli ára.

Bjarni Ármannsson forstjóri ISI, og eigandi 11% hlutar í félaginu í gegnum félagið Sjávarsýn ehf., segir niðurstöður uppgjörs fyrstu níu mánuða ársins sýna hversu skrýtnar aðstæður séu í heiminum vegna Covid 19 faraldursins.

„Öflugar sölutölur á þriðja ársfjórðungi - sem eru á pari við sama tímabil fyrir ári sýnir að við höfum náð okkur vel á strik eftir viðamikla niðursveiflu í vor. En það er sanngjarnt að segja að fjórði ársfjórðungur verður undir miklum áhrifum frá töluverðum takmörkunum í Evrópu til að draga úr áhrifum faraldursins og tilheyrandi þrýstingi á heilbrigðiskerfið,“ segir Bjarni.

„Við sjáum núna auknar væntingar til bjartsýni til langs tíma þökk sé hraðari þróun í bóluefnum en nokkurn tíman hefur sést áður. En það er ljóst að veturinn á eftir að verða kaldur og það er mikilvægt að geta siglt í gegnum þann ólgusjó sem framundan er.“