Húsleitir og handtökur Special Fraud Office (SFO) í gær gætu mögulega sett yfirtöku Roberts Tchenguiz og arabískra samstarfsmanna hans á breskum glæsihótelum í uppnám. Tchenguiz og átta aðrir einstaklingar voru handteknir í gærmorgun vegna rannsóknar SFO á lánveitingum Kaupþings til Tchenguiz. Þeir voru allir látnir lausir í gær gegn tryggingu.

Mikið var ritað um það í breskum fjölmiðlum í fyrradag að Robert Tchenguiz, stærsti einstaki skuldari Kaupþings fyrir bankahrun, væri nálægt því að ná yfirráðum í Mayborne Hotel Group, sem rekur nokkur af þekktustu lúxushótelum Lundúna.

Keyptu upp írskar skuldir með affölum

Írskir fasteignamógúlar sem eiga 35% í Mayborne lentu í töluverðum vandræðum eftir hrun og  Tchenguiz hefur ásamt Sheik Mansour bin Zayed Al Nahyan, meðlimi konungsfjölskyldunnar í Abu Dhabi og eiganda Manchester City, verið að kaupa upp skuldir Mayborne við írska banka með afföllum. Í krafti stöðu sinnar sem kröfuhafar töldu þeir sig geta náð yfirráðum í Mayborne. Þar hefur Tchenguiz meðal annars verið að berjast um yfirráð við David og Frederick Barclay, sem eiga meðal annars Daily Telegraph.

Telegraph greinir síðan frá því að rannsókn SFO á Tchenguiz og handtaka hans í gær í tengslum við þá rannsókn geti mögulega sett strik í reikninginn í baráttu hans um yfirráð yfir Mayborne. Í pistli um málið skrifar viðskiptaritstjóri blaðsins, Richard Fletcher, meðal annars um að menn sem muni lengur en tvævetur í bransanum muni líklega bera málið saman við það sem gerðist við yfirtöku Arcadia árið 2002.

Líkt við Arcadia málið

Til upprifjunar þá snérist það mál um að Baugur, sem þá var lítið smásölufyrirtæki sem átti 20% í Arcadia, og Philip Green tóku sig saman og ætluðu að yfirtaka félagið, sem átti meðal annars fataverslunarkeðjurnar Topshop og Dorothy Perkins. Þegar samningar um yfirtöku þeirra á Arcadia voru á lokastígi réðst íslenska efnahagsbrotadeildin í húsleit í höfuðstöðvum Baugs við Túngötu í tengslum við það sem síðar var einungis þekkt sem „Baugsmálið“. Green firrtist við, keypti Baug út og tók Arcadia yfir einn. Sú yfirtaka skilaði honum gríðarlegum ávinningi.