Te & Kaffi er fyrirtæki ársins í Hafnarfirði en útnefningin fór fram við hátíðlega athöfn í Hafnarborg í gær. Með viðurkenningunni er ætlað að heiðra fyrirtæki sem þótt hafa skarað fram úr á árinu við að efla atvinnulíf í bænum.

Jóhannes Egilsson, varaformaður stjórnar Markaðsstofu Hafnarfjarðar flutti ávarp og afhenti Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri Hafnarfjarðarkaupstaðar, viðurkenninguna.

Fimm fyrirtæki voru tilnefnd að þessu sinni og auk Te&Kaffi voru það Betri Stofan, H-Berg, Litla hönnunarbúðin og Sorgarmiðstöð. Hvatningarverðlaun Markaðsstofu Hafnarfjarðar voru fyrst afhent árið 2017 en þau verðlaun eru núna nefnd Fyrirtæki ársins í Hafnarfirði.

Te & Kaffi er fjölskyldufyrirtæki sem var stofnað árið 1984. Í tilkynningu segir að fyrirtækið hafi undanfarin ár haldið loftlagsbókhald og stuðlað að aukinni sjálfbærni, meðal annars með umhverfisvænni orkugjafa og niðurbrjótanlegum umbúðum.