Rafbílaframleiðandinn Tesla var ekki tekinn inn í þann hóp fyrirtækja sem S&P500 hlutabréfavísitalan samanstendur af, við endurskoðun samsetningarinnar síðastliðinn föstudag. Ákvörðunin kom mörgum í opna skjöldu, en næsta víst hafði verið talið að svo yrði.

Þremur fyrirtækjum var bætt inn á listann á föstudag, í skiptum fyrir þrjú sem duttu út á móti. Eftir að hafa skilað hagnaði á öðrum ársfjórðungi uppfyllti Tesla loks skilyrðin til að komast á listann, en komst þó ekki inn í þessari lotu, þrátt fyrir að markaðsvirði þess sé yfir 100-falt meira en þess minnsta á listanum.

Öll helstu stórfyrirtæki Bandaríkjanna eru á listanum, hvers samanlagða markaðsvirði er 70-80% af heildarmarkaðsvirði allra skráðra fyrirtækja vestanhafs.

Hefði Tesla bæst við listann hefði það þýtt að fjárfestingasjóðir sem fylgja vísitölunni þyrftu að kaupa bréf rafbílaframleiðandans, sem almennt leiðir til hækkunar hlutabréfaverðs, enda um 11 þúsund milljarðar dala af eignum sem fylgja vísitölunni samkvæmt mati S&P.

Í frétt Financial Times um málið vildu forsvarsmenn S&P ekki tjá sig um málið, en fram kemur að ein hugsanleg ástæða ákvörðunarinnar um að taka Tesla ekki inn í hópinn sé sú að félagið skilaði tapi ef litið er fram hjá sölu umhverfisvottorða til annarra bílaframleiðanda, en Tesla framleiðir sem kunnugt er aðeins rafbíla.

Hlutabréf félagsins féllu um 7% í viðskiptum á eftirmarkaði í kjölfar tilkynningarinnar um málið á föstudag.