Slitastjórn Landsbankans krefur Sigurjón Þ. Árnason, fyrrverandi bankastjóra Landsbankans, um samtals 65 milljarða króna í skaðabætur í þremur málum tengd falli bankans árið 2008. Fyrirtaka var í einu riftunarmáli þrotabúsins gegn Sigurjóni í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær. Fréttablaðið segir málið hafa velkst um í dómskerfinu í þrjú ár og því einu sinni verið vísað frá. Það snýr að því að rifta launagreiðslum til Sigurjóns upp á 300 milljónir króna. Önnur mál tengjast aðrir fyrrverandi stjórnendur Landsbankans, þar á meðal Halldór J. Kristjánsson, sem var bankastjóri Landsbankans við hlið Sigurjóns, og fyrrverandi bankaráðsmönnum.

Sigurður G. Guðjónsson, lögmaður Sigurjóns, segir í samtali við Fréttablaðið Sigurjón ekki borgunarmann fyrir skaðabótakröfunum:

„Það er verið að djöflast á þessum mönnum, en þá gleymist á sama tíma að slitastjórnirnar þurfa að ráða lögfræðinga, sem ráða algjörlega sínu tímakaupi og kostnaðurinn verður að lokum meiri en heimtur,“ segir hann.

Sigurður segir málin fjarstæðukennd og telur aðrar hvatir á bak við stefnurnar en að endurheimta pening í þrotabúið.