Louis Kuijs, hagfræðingur hjá Oxford háskóla, segir að „það versta sé að baki" í aðfangakeðjuvandamálum í heimshagkerfinu samkvæmt umfjöllun Wall Street Journal.

Jafnframt eru sérfræðingar á einu máli að raskanir í aðfangakeðju heimshagkerfisins hafi þegar náð hámarki. Framkvæmdastjórar á sviði vöruflutnings, framleiðslu og smásölu telja þó að hin alþjóðlega aðfangakeðja verði ekki komin í eðlilegt horf fyrr en á næsta ári. Ný afbrigði af Covid-19 sem keyra áfram nýjar bylgjur víðs vegar um heiminn ásamt öfgum í veðurfari stuðli að áframhaldandi vandamálum alþjóðlegu aðfangakeðjunnar samkvæmt sérfræðingum sem Wall Street Journal ræddi við.

Framkvæmdastjórar og hagfræðingar telja enn fremur að mikil eftirspurn eftir vörum á Vesturlöndum, áframhaldandi þrengingar á höfnum í Bandaríkjunum, skortur á vörubílstjórum og hækkandi flutningsgjöld muni fresta því að aðfangakeðjan nái fyrra horfi.

Stórar verslunarkeðjur í Bandaríkjunum eins og Walmart, Home Depot og Target hafa unnið bug á framboðsskorti af völdum aðfangakeðjuvandamála með því að flytja inn vörur fyrir jólavertíðina fyrr en vanalega. Christine Humphreys, meðeigandi drykkjarfyrirtækisins The Alcohol-Free Shop segir flutninga á vörum fyrirtækisins frá Þýskalandi til Bretlands taka þrefalt lengri tíma en venjulega.

Jan Held, meðeigandi í skipafélaginu Held Shipping, segir þrengingar hafna í Asíu vera á undanhaldi en að alþjóðleg flutningskerfi muni ekki fara í eðlilegt horf fyrr en faraldrinum lýkur.