„Við erum að horfa á að styrkja reksturinn og finna farveg fyrir okkar aflaheimildir,“ segir Vilhjálmur Vilhjálmsson, forstjóri HB Granda. Greint var frá því í  gær að fyrirtækið hafi keypt það sem út af stóð af eignarhlut í Norðanfiski á Akranesi og eigi HB Grandi nú félagið allt. Fyrir átti HB Grandi 23,8% hlut í Norðanfiski.

Aðrir eigendur voru Pálsgerði, ehf, sem er í eigu Kjarnafæðis, Brim hf. og Pétri Þorleifssyni. Norðanfiskur sérhæfir sig í vinnslu sjávarafurða í neytendapakkningar og sér einstaklingum, veitingahúsum, mötuneytum og verslunum fyrir margvíslegum sjávarréttum. Fyrirtækið var stofnað á Akureyri árið 2001 en flutti starfsemi sína tveimur árum síðar til Akraness þegar það sameinaðist fyrirtækinu Íslenskt-Franskt eldhús.

Í tilkynningu um kaupin sem send var út í gær kemur fram að þau eru liður í áherslu HB Granda á aukna verðmætasköpun úr aflaheimildum félagsins. Með kaupunum hyggst HB Grandi skapa leið fyrir fullunnar afurðir sínar á innanlandsmarkaði. Vilhjálmur segir í samtali við VB.is horft til þess að kaupin styrki rekstur HB Granda með svipuðum hætti og kaupin á Laugafiski og Vigni G. Jónssyni. Hann sé m.a. aukna möguleika í markaðssetningu á karfa. Engar breytingar eru fyrirhugaðar á rekstri fyrirtækisins.

Kaupverðið á Norðanfiski var 580 milljónir króna. Spurður hvernig greitt var fyrir svarar Vilhjálmur einfaldlega:

„Þetta er bara staðgreitt.“