Á nokkrum McDonalds-stöðum í Bandaríkjunum og Englandi er nú hægt að panta mat af snertiskjám, setjast svo niður og bíða eftir að þjónar beri matinn á borð. Um er að ræða útvíkkun á tilraun sem áður hefur staðið yfir í Þýskalandi, Frakklandi og Ástralíu. CNN Money greinir frá þessu.

McDonalds hefur gengið illa að undanförnu. Sala fyrirtækisins hefur staðnað eða minnkað á flestum markaðssvæðum og hefur fyrirtækið ráðist í ýmsar tilraunir, sem sumir hafa kallað örvæntingarfullar , til að blása lífi í reksturinn.

Útliti staða, búningum starfsfólks og umbúðum hefur verið breytt, og nýtt McDonalds app er væntanlegt. Nokkrir staðir í Japan bjóða viðskiptavinum að koma inn í eldhúsið og skoða hvernig maturinn er eldaður. Í Kaliforníu bjóða nokkrir McDonalds-staðir upp á einfaldan morgunverð: grænkál .