„Gervigreind mun breyta nánast öllum geirum og snúa þeim á hvolf. Þau fyrirtæki sem ætli sér að lifa af munu þurfa að innleiða einhvers konar gervigreind í sínum rekstri,“ segir Einar Sævarsson, forstjóri íslenska hugbúnaðarfyrirtækisins Activity Stream. Fyrirtækið sem stofnað var árið 2015, nýtir gervigreind til að aðstoða viðskiptavini á þremur sviðum: „Að auka tekjur, að koma betur fram við viðskiptavini og halda betur utan um reksturinn,“ segir Einar.

Activity Stream hefur vaxið hratt og er með stóra viðskiptavini í bandarískum íþrótta og skemmtanaiðnaði. „Við erum í samstarfi við Shubert Organization. Þeir eiga og reka rúmlega helminginn af öllum leikhúsum á Broadway. Þeir eru gríðarlega hrifnir af því sem við erum að gera. Þeir hafa gengið svo langt á ráðstefnum að segja að ef þetta haldi svona áfram þá verði gervigreind farin að keyra á Broadway eftir tvö ár,“ segir Einar.

„Við erum líka að vinna með næststærsta miðasölufyrirtæki í Bandaríkjunum. Þeir eru byrjaðir á því að bjóða öllum sínum viðskiptavinum aðgang að Activity Stream. Þetta þýðir það að við erum að fá töluvert magn af heimsþekktum íþróttaliðum og leikvöngum.“ Gervigreind Activity Stream mun í framhaldi af þessu nýtast fjórð­ungi allra íþróttaliða í einni af fjórum stóru íþróttadeildunum í Bandaríkjunum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .