*

sunnudagur, 1. ágúst 2021
Innlent 5. febrúar 2015 13:43

Þrír ráðherrabílar auglýstir til sölu

Ríkiskaup óska nú eftir tilboðum þrjá gamla ráðherrabíla en það eru BMW, Passat og Volvo.

Trausti Hafliðason

Fjórhjóladrifinn BMW 5 er nú auglýstur til sölu í bílaútboði Ríkiskaupa. Þetta er bíll sem er í eigu fjármála- og efnahagsráðuneytisins og hefur þjónað sem ráðherrabíll undanfarin ár. Bíllinn er töluvert ekinn, eða 241 þúsund kílómetra. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins er erfitt að verðmeta bílinn en líklegt verð er á bilinu 3 til 3,5 milljónir króna.

Í nóvember greindi Viðskiptablaðið frá því að bíllinn hefði verið tekin úr notkun síðasta sumar eftir að hann bilaði. Á meðan bíllinn var á verkstæði ók Bjarni um á bílaleigubíl. Nú er hann kominn á nýjan bíl. Það er líka þýskur gæðingur eða Mercedes Benz E 250 4MATIC, sem þýðir að hann er með drif á öllum hjólum.  Mercedes-Benz E-Class kostar frá um 10 milljónum samkvæmt verðlista Bílaumboðsins Öskju.

Á bílauppboði Ríkiskaupa kennir ýmissa grasa. Þar er einnig óskað eftir tilboði í VW Passat, sem var ráðherrabíll Árna Páls Árnasonar, þegar hann var félagsmálaráðherra árið 2009 til 2010. Passat-inn er svartur, ekinn 76 þúsund kílómetra og með leðuráklæðum. Samkvæmt upplýsingum Viðskiptablaðsins er svona bíll metin á 1,5 til 1,9 milljónir.

Einnig er auglýstur til sölu Volvo XC90 jepplingur. Þetta er ráðherrabíll sem Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra ók um á, sem og Ögmundur Jónasson þegar hann var innanríkisráðherra. Bíllinn er ekinn 207 þúsund kílómetra og metinn á 3 til 3,5 milljónir.

Ríkiskaup óska einnig eftir tilboðum í þrjá vélsleða sem eru í eigu skíðasvæðanna og rafmagnsvespu sem Umhverfisstofnun hafði til afnota.

Hægt er að skoða tækin sem auglýst eru til sölu á vef Ríkiskaupa.