Í dag opnaði Íslandsbanki nýtt útibú á 1. hæð Norðurturnsins í Kópavogi og sameinast þar þrjú útibú bankans, það er útibúin í Þarabakka, á Digranesvegi og á Garðatorgi.

Er stefnt að því að höfuðstöðvar bankans flytjist í turninn á nýju ári, eins og Viðskiptablaðið hefur greint frá , en flutningurinn er þegar hafinn og fyrstu 100 starfsmennirnir eru komnir á staðinn.

Þegar allt verður komið, verða um 600 starfsmenn í höfuðstöðvum bankans í 3. til 9. hæð í turninum að því er heimildarmenn Viðskiptablaðsins herma.

Næg bílastæði og sérstakir hraðþjónusturáðgjafar

„Útibúið í Norðurturni verður eitt af stærstu útibúum Íslandsbanka og er staðsett miðsvæðis á höfuðborgarsvæðinu, nálægt verslunarkjarna, einstaklings- og atvinnubyggð,“ segir í fréttatilkynningu frá bankanum.

„Næg bílastæði eru við útibúið og aðgengi gott. Lilja Pálsdóttir er útibússtjóri hins nýja útibús í Norðurturni, Kári Tryggvason er viðskiptastjóri einstaklinga og Karl Sólnes Jónsson er viðskiptastjóri fyrirtækja.“

Una Steinsdóttir, framkvæmdastjóri Viðskiptabankasviðs segir að samhliða auknum möguleikum á sjálfsafgreiðslu verði boðið upp á persónulega og góða þjónustu.

„Þannig verða sérstakir hraðþjónusturáðgjafar til þjónustu reiðubúnir til að aðstoða viðskiptavini svo hægt sé að gera heimsóknina í útibúið sem þægilegasta og mikið verður lagt upp úr ánægjulegri upplifun viðskiptavina,“ segir Una meðal annars í fréttatilkynningunni.