Að óbreyttu mun skiptum á þrotabúi TF HOT ehf. ljúka án þess að nokkuð muni fást upp í lýstar kröfur. Boðað hefur verið til skiptafundar sem fara á fram eftir viku en í auglýsingu í Lögbirtingablaðinu kemur fram að komi eigi fram ábendingar um eignir í búinu í síðasta lagi á fundinum muni skiptum ljúka. Lýstar kröfur í búið námu rúmlega 40 milljónum króna.

TF HOT var rekstraraðili Base Hotel á Ásbrú í Keflavík en starfsfólki félagsins var sagt upp í byrjun þessa árs og félagið tekið til skipta í lok janúar. Eigandi alls hlutafjár í félaginu var Títan Fasteign ehf., sem að auki á TF KEF og TF KÓP, en það er að fullu í eigu Skúla Mogensen. Fasteignin sem hótelreksturinn fór fram í er í eigu TF KEF.

Base Hotel opnaði á haustmánuðum ársins 2016 en þegar tilkynnt var um opnun þess var þess getið að tugir listaverka, eftir margt fremsta nútímalistafólk landsins, myndu prýða veggi þess. Hótelið sjálft var meðal annars málað í felulitum en í því felst vísun í það þegar bandaríski herinn hafði aðsetur á Ásbrú.

Síðasti ársreikningur sem félagið skilaði var vegna reikningsársins 2018. Samkvæmt honum nam EBITDA 23 milljónum króna en hann hafði verið 78 milljónir króna árið áður. Að teknu tilliti til fjármagnsliða og skatta var hagnaðurinn tæpar 15 milljónir króna. Félagið seldi gistingu fyrir 332,6 milljónir króna en aðrar tekjur námu 96 milljónum króna. Átta milljón króna aukning varð á tekjum frá árinu 2017 en að sama skapi hækkuðu gjöld um rúmar 60 milljónir króna. Arðgreiðslur til eiganda vegna rekstrarársins 2018 námu sex milljónum króna en höfðu verið tæplega 57 milljónir króna árið áður.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .