„Nei, það er ekki í reglum hjá okkur. Þeir þurfa að birta um það upplýsingar og þá er það síðan viðkomandi fyrirtækis og hluthafa þess að ákveða og meta hvernig skuli vinna úr því. En ef það verður sakfellt fyrir brotið þá getur komið til mats af hálfu Kauphallarinnar,“ segir Baldur Thorlacius, forstöðumaður eftirlitssviðs Kauphallar Íslands, í samtali við RÚV aðspurður hvort eitthvað sé í reglum Kauphallarinnar um að stjórnarmenn skráðra félaga skuli víkja hafi þeir verið ákærðir.

Rannveig Rist, forstjóri Rio Tinto Alcan og stjórnarmaður HB Granda, og Margrét Guðmundsdóttir, stjórnarformaður N1, eru meðal ákærðra í SPRON-máli þar sem sparisjóðsstjóri og fjórir stjórnarmenn eru ákærðir fyrir umboðssvik. HB Grandi og N1 eru bæði skráð á markað í Kauphöllinni.

Félögin hafa bæði sent frá sér tilkynningar þar sem greint er frá því að félögin viti af ákærunni og muni fara yfir málið á næstu dögum.