Halldór Halldórsson, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur, segir að hans fyrstu viðbrögð við nýrri könnun sem að Gallup gerði fyrir Viðskiptablaðið hafi verið sú að hann átti von á því að flokkurinn væri með meira fylgi. „Ég tel okkur eiga töluvert mikið inni,“ segir Halldór í samtali við Viðskiptablaðið. Sjálfstæðisflokkurinn mælist með 26,8% fylgi í könnuninni en flokkurinn fékk 25,7% fylgi í kosningunum 2014.

„Næsta sem kom upp í hugann var að mér finnst þetta mjög landsmálatengd könnun. Vinstri græn eru til að mynda með 20% sem er svipað og í nýjustu könnun á landsvísu. Ég held að það séu Katrínar Jakobs-áhrifin. Með fullri virðingu fyrir Líf Magneudóttur, sem er alveg ágæt. Mig minnir að Sjálfstæðisflokkurinn hafi einnig verið með svipað fylgi í síðustu könnun á landsvísu,“ segir Halldór.

Kjósendur átti sig ekki á því hverjir eru í meirihlutanum

Í þriðja lagi segir Halldór að hann telur að fólk geri sér ekki neina grein fyrir því hvaða flokkar eru í meirihlutanum í Reykjavík. „Það er kannski einhver sem hugsar að hann sé brjálaður út í  Dag, borgarstjóra, og „Holu-Hjálmar,“ sami einstaklingur segir að götur í Reykjavík séu fullar af holum. Í kjölfarið telur fólk að þeir verði ekki kosnir. Svo er hringt frá fyrirtæki sem er að gera skoðanakönnun og þá segist fólk ætla að kjósa VG eða Pírata. En það eru einmitt þeir flokkar sem mynda þennan meirihluta,“ segir hann.

Oddviti Sjálfstæðisflokksins telur það mjög vondar fréttir að þessi meirihluti myndi halda miðað við könnunina. „Ég tel að það sé enn frekar okkar hlutverk að upplýsa borgarbúa um þá valkosti sem þeir standa frammi fyrir. Við munum þó ekki átta okkur almennilega á þessu strax. Borgarbúar hafa ekki úr miklu til að velja úr núna fyrr en þeir sjá hverjir verða í framboði fyrir hvern flokk. En við þurfum að gera svo miklu betur. Við erum búin að vera töluvert áberandi upp á síðkastið og verðum það áfram. Það ýmislegt sem við erum að berjast fyrir,“ bætir Halldór við.

Vilja minnka álögur

Spurður að því hvað sé hægt að gera til að bæta stöðu flokksins segir Halldór ekki annað hægt að gera en að draga upp skýra valkosti. „Við leggjum áherslu á eftirfarandi hluti: Meira val, meiri áhersla á grunnverkefni og minna á gæluverkefni. Við ætlum að einbeita okkur að því að minnka álögur á fólk, hvort sem það eru fasteignagjöld eða útsvar.“