Um 10.000 manns urðu fyrir barðinu á svikurum sem reyndu að fá peninga í gegnum bókunarsíðuna Booking.com. Viðskiptavinir sem höfðu pantað sér hótelgistingu fengu símtal og tölvupósta þar sem farið var fram á fyrirframgreiðslu fyrir hótelgistingunni þar sem reglur hótelsins hefðu breyst. Síðan voru peningarnir færðir inn á reikning sem tilheyrði svikahröppunum.

Upplýsingum var því stolið um viðskiptavini Booking.com en sú síða er ein stærsta sinnar tegundar í heiminum. Þetta kemur fram á vef breska ríkisútvarpsins.

Starfsmaður, sem nefndur er Tom, í fréttinni tók þátt í að hringja í viðskiptavini Booking.com en gerði sér ekki grein fyrir að þetta væri ólögleg starfsemi. Hann fékk greidda 12 dollara á tímann og náði að hringja í um 250 viðskiptavini á einum vinnudegi. Mikið af því fólki sem hann ræddi við var á leið til London, meðal annars frá Bangladesh, Ísrael, Suður-Afríku, Kína, Japan og Indlandi.

Tom sagðist ekki hafa hitt yfirmann sinn og sagði miklu dulúð vera yfir starfseminni. Hann hafi því viljað koma fram þar sem hann gerði sér ekki grein fyrir alvarleika málsins og var reiður yfir því að vera dreginn inn í þessa starfsemi.