Þýska þingið greiddi í dag atkvæði um það hvort samþykkja ætti fjögurra mánaða framlengingu á fjárhagslegri aðstoð við gríska ríkið og var tillaga þess efnis samþykkt. Framlengingin er bundin við tillögur grísku ríkisstjórnarinnar um aðhald og hagræðingu í ríkisrekstri.

Fjármálaráðherrar evruríkjanna samþykktu tillögur gríska ríkisins fyrir sitt leyti á þriðjudaginn, en tillögurnar þarf einnig að samþykkja í þjóðþingum evruríkjanna. Það þykir mikilvægt að hafa fengið samþykki þýska þingsins, enda er efnahagslegur slagkraftur Þýskalands meiri en annarra evruríkja.

Þrátt fyrir að tillagan hafi verið samþykkt með töluverðum meirihluta atkvæða þá segir í frétt BBC að umræðurnar í þinginu hafi verið hörð og að oft hafi verið gripið fram í fyrir ræðumönnum. Þá segir það sitt um alvarleika málsins að Wolfgang Schaeuble fjármálaráðherra mælti með samþykkt tillögunnar með þeim orðum að Þjóðverjar þyrftu að gera allt sem í þeirra valdi stæði til að halda Evrópu saman.