Sindri Sigurgeirsson, formaður Bændasamtakanna, segir að samtökin séu reiðubúin til að ræða smærri breytingar á búvörusamningunum. Han segir hins vegar að ganga þurfi aftur að samningaborðinu ef gera eigi grundvallarbreytingar á samningnum. RÚV greinir frá.

Sindri segir að búið sé að skrifa undir samningana. Ef breyta eigi grundvallarskipulagi í framleiðslu afurða og skiptingu greiðslna til bænda kalli það á nýja stefnumótun. Hann segir þó að ef hægt sé að færa einhverja augljósa ágalla til betri vegar komi það til greina, svo lengi sem það raskar ekki grundvallarskipulagi samninganna.

Samkeppniseftirlitið gagnrýndi frumvarp um búvörusamninga harðlega í umsögn sem send var á dögunum. Stofnunin segir að frumvarpið þarfnist gagngerrar endurskoðunar í því skyni að tryggja almannahagsmuni.