*

þriðjudagur, 13. apríl 2021
Innlent 8. apríl 2021 20:13

Þungt gjald lagt á nikótínpúða

Nikótínvörur verða settar undir sama hatt og rafrettur samkvæmt nýju frumvarpi heilbrigðisráðherra.

Jóhann Óli Eiðsson
Tilkynna ber HMS nýjar vörur með þriggja mánaða fyrirvara en eldri vörur innan þriggja mánaða frá gildistöku laganna.

Nikótínpúðum og öðrum nikótínvörum verður kippt undir gildissvið laga um rafrettur samkvæmt nýju frumvarpi heilbrigðisráðherra. Frumvarpið var afgreitt út úr þingflokkum ríkisstjórnarinnar, heimildir blaðsins herma að Sjálfstæðisflokkurinn hafi gert það með semingi, á síðasta séns áður en afbrigði hefði þurft til að leggja það fram.

Nikótínpúðar fóru að láta á sér kræla á íslenskum markaði í undir lok árs 2019. Sprenging varð síðan í notkun þeirra í fyrra en þá staðreynd mátti augljóslega merkja í sölutölum íslenska neftóbaksins. Sala dróst saman um nærri helming samanborið við árið 2019. Þá seldi ÁTVR 46 tonn af íslenskum rudda fyrir rúmlega 1.512 milljónir króna. Púðarnir hafa verið hálfgert olnbogabarn fyrir hið opinbera enda teljast þeir ekki matvæli, ekki rafrettur, ekki lyf og ekki tóbak. Því hafa engar reglur náð yfir þá og það hugnast ríkinu ekki.

Meðal þess sem lagt er til í frumvarpinu er að innflytjendur og framleiðendur geri eftirlitsaðilum viðvart með þriggja mánaða fyrirvara áður en markaðssetning á vöru hefst. Þá verður ráðherra heilbrigðismála gert skylt að setja í reglugerð hámarksstyrkleika nikótíns í nikótínvöru. Við setningu þeirra reglna ber ráðherra að hafa hliðsjón af hámarksstyrleika rafrettuvökva sem er 20 mg/ml. Því er viðbúið að einhver hluti núverandi vara verði yfir þakinu og muni hverfa úr hillum.

Þá er lagt til að nikótínvörur falli undir reglugerð um tilkynningar til Neytendastofu um markaðssetningu rafrettna og áfyllinga fyrir rafrettur sem innihalda nikótín. Sú reglugerð hefur að geyma heimild til álagningar tilkynningargjalds, 75 þúsund krónur, fyrir hverja tilkynningu sem stofnuninni berst. Gjaldið leggst á hvert og eitt strikamerki sem kemur á markaðinn og getur því verið gífurlega fljótt að safnast saman. 

Gjaldið reyndist mörgum seljendum rafrettna og áfyllingarvökva þungur baggi og þurftu einhverjir að greiða milljónir vegna gjaldsins. Gjald hefur verið til skoðunar hjá umboðsmanni Alþingis enda vafi uppi um hvort þar sé á ferð þjónustugjald eða skattur. Aftur á móti er lagt til brottfall skyldu til greiðslu 0,9% af brúttósölu rafrettna og annara nikótínvara í lýðheilsusjóð.

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun fylgist með

Um miðjan marsmánuð var samþykkt frumvarp á Alþingi um breytingu á lögum um Neytendastofu. Þau taka gildi 1. október næstkomandi en samkvæmt þeim færist ákveðinn hluti eftirlits, sem áður var undir Neytendastofu, til Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS). Meðal þess var eftirlit með innihaldi og innihaldslýsinga rafrettna og nikótínvökva og mun hið sama gilda um nikótínpúðana og -vörurnar. Ákvarðanir HMS verða síðan kæranlegar til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Neytendastofa og fjölmiðlanefnd munu hafa eftirlit með auglýsingabanni.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér. Meðal annars efnis í blaðinu er:

  • Átök innan hluthafahóps BVS ehf., sem heldur utan um hlut í Visa Inc., halda áfram.
  • Ísland á tvo fulltrúa á nýútgefnum auðmannalista Forbes tímaritsins. Nokkrir auðmenn á listanum tengjast svo Íslandi með einum eða öðrum hætti.
  • Rætt við Valdísi Arnórsdóttur sem leitt hefur alþjóðlegt krísuteymi innan Marel í faraldrinum.
  • Fjallað er um afkomu nokkurra íslenskra fjármálafyrirtækja. 
  • Rekstur og framtíð Samkaupa er sömuleiðis til umfjöllunar.
  • Óðinn drepur niður penna og fjallar um strætisvagna og borgarlínu.
  • Aðgerðir í sóttvörnum eru Tý ofarlega í huga og venju samkvæmt eru Huginn og Muninn á sínum stað.
  • Rætt er við Önnu Svövu Knútsdóttur, einn af stofnendum nýs matarpakkafyrirtækis
  • Vagnafloti Strætó er kominn vel til ára sinna og útvistun aksturs talsvert ódýrari.