Hverfandi líkur eru á að af rannsóknarverkefni Pfizer hér á landi þar sem þjóðin verði bólusett með bóluefni Pfizer þar til hjarðónæmi við kórónuveirunni næst. Þetta hefur Vísir eftir Þórólfi Guðnasyni sóttvarnarlækni eftir fund hans, Kára Stefánssonar og Más Kristjánssonar, yfirlæknis smitsjúkdómadeildar Landspítalans með Pfizer.

„Ég myndi segja það að það séu mjög litlar líkur á því að það verði af þessu, það er ekki búið að slá það alveg út af borðinu en það eru svona hverfandi líkur finnst mér,“ hefur Vísir eftir Þórólfi.

Þá sagði Kári Stefánsson við mbl.is að hann ætti ekki von á því að af verkefninu yrði. „Það var mat Pfizer að hér væru of fá tilfelli til þess að framkvæma rannsókn af þessu tagi. Við höfðum engin haldbær rök gegn því,“ hefur mbl.is eftir Kára.