Breska lággjaldaflugfélagiðEasyJet var stundvísasta flugfélagið á Keflavíkurflugvelli fyrri hluta júnímánaðar. Hlutfall ferða félagsins var í 94% tilvika á réttum tíma. Wow air kom þó ekki langt á eftir en 91% ferða félagsins voru á réttum tíma.

Þá voru 86% ferða Lufthansa á réttum tíma, 81% ferða Icelandair og 79% ferða SAS.

Þetta kemur fram í mánaðarlegum stundvísitölum sem birtar eru á vef Túrista. Rétt er að geta þess að talverður munur er á fjölda ferða félaganna. Icelandair er sem fyrr langumsvifamesta félagið með 875 ferðir á tímabilinu á meðan Wow air flaug 174 ferðir. Önnur félög voru með innan við 40 ferðir.

Til gamans má geta þess að á föstudag voru liðin tvö ár síðan Túristi birti fyrst stundvísitölur flugfélaga á Keflavíkurflugvelli. Kristján Sigurjónsson, eigandi síðunnar, segir í samtali við Viðskiptablaðið að sumarið 2011 hafi verið mikil umræða um óstundvísi Iceland Express og að ferðaáætlanir marga hafi farið úr skorðum vegna þess.

„Enginn vissi þó nákvæmlega hversu miklar tafirnar voru eða hvernig önnur félög stóðu sig,“ segirKristján.

„Mér rann því blóðið til skyldunnar enda óhætt að fullyrða að stór hluti þeirra tuga þúsunda sem lesa ferðagreinar Túrista sé á leið til útlanda.“

Kristján segir þetta vissulega tímafrekt verkefni og þá sérstaklega á sumrin þegar flugin eru mörg.

„Það er mikið hagsmunamál fyrir farþega að áætlanir flugfélaganna standist,“ segir Kristján.

„En það er líka mikilvægt fyrir ferðaþjónustuna í landinu að þessar tölur séu birtar reglulega. Sumar ferðaskrifstofur sækja t.d. farþega úr nokkrum vélum út á völl og halda síðan áfram út á land. Þá skiptir miklu máli að flugfélögin séu stundvís því annars riðlast hópferðin. Fyrirtæki vilja sennilega ekki heldur senda starfsmenn sína með flugfélögum sem eru óstundvís. Það eru því margir sem hafa gagn af þessu.“