„Tobba rakst á hönnun Óskars og við ákváðum bara að gera eitthvað. Þetta er algjört win win, við söfnum pening fyrir Davíð og fjölskyldu og vekjum athygli á ungum hönnuði," segir Karl Sigurðsson en hann og Þorbjörg Marínósdóttir hafa hrundið af stað bolasölu. Allur ágóði sölunnar mun renna til Davíðs Olgeirssonar sem lenti í alvarlegu slysi á fótboltaæfingu um miðjan síðasta mánuð.

Útlit er fyrir að Davíð þurfi að vera frá vinnu og í stífri endurhæfingu fram á næsta ár en með dugnaði og jákvæðni ætlar hann að ná sér að fullu.

Bolirnir eru úr smiðju listamannsins Óskars Hallgrímssonar, nema í Listaháskóla Íslands, en allur ágóði af sölunni rennur til Davíðs og fjölskyldu. Kalli og Davíð hafa verið vinir í mörg ár og eru m.a. saman í sönghópnum Brooklyn Fæv: „Allir sem þekkja Davíð vita að hann er ótrúlega jákvæður einstaklingur og mikill keppnismaður svo ég er ekki í nokkrum vafa um að hann muni ná fullum bata,“ segir Kalli um vin sinn.

Bolina má panta á Facebooksíðu söfnunarinnar en þeir kosta 5.900 kr. og fást í tveimur útgáfum, með hauskúpu eða hreindýri.