Vestur í Bandaríkjunum er fjölmiðlasirkus forseta kosninganna 2016 hafinn. Þar eru trúðarnir áberandi eins og sést á því að sjónvarpsfréttamiðlar hafa fjallað meira um Donald Trump en alla frambjóðendur demókrata til samans.

En það er líka athyglisvert að bera saman hvernig sjónvarpsfréttastofurnar hafa sinnt forsetakosningum árið fyrir kosningar, þegar val frambjóðenda stóru flokkanna stendur yfir. Sem sjá má var umfjöllunin mun minni hér á árum áður, en það er eins og eitthvað hafi gerst á fjölmiðlum árið 2007, þegar sigurganga Baracks Obama var að hefjast. Fjöldi fréttamínútna nær ferfaldaðist  að meðaltali, þegar litið er til tímabilanna fyrir og eftir 2007.