Stjórn SVÞ ? Samtaka verslunar og þjónustu telur að það eigi fremur að vera markmið stjórnvalda að efla almenna verslun í landinu, sem skilar samfélaginu eðlilegum og almennum tekjum, en að reka tollfrjálsa komuverslun í flugstöðvum í beinni samkeppni við innlenda verslun. Því eigi að afleggja tollfrjálsa komuverslun í Flugstöð Leifs Eiríkssonar (FLE) og á öðrum flugvöllum segir í yfirlýsingu SVÞ.

Þar segir ennfremur að eðlilegt væri að einungis þeir sem búsettir er erlendis geti keypt skattfrjálsan varning (?Tax-free") við komu til landsins líkt og þeir geta nú gert í verslunum um allt land. Núverandi fyrirkomulag sem heimilar öllum sem koma til landsins að kaupa vörur í komuverslun Fríhafnarinnar án virðisaukaskatts og annarra gjalda skekkir samkeppnisstöðu annarra verslana í landinu. Ætla má að þeir sem búsettir eru hér á landi myndu kaupa sambærilega vöru í öðrum verslunum landsins ef Fríhafnarverslunin byði þær ekki án virðisaukaskatts og annarra gjalda við komuna til landsins. Einnig er vert að stjórnvöld íhugi hvað réttlætir það að þeir Íslendingar sem ferðast til útlanda njóti þeirra forréttinda að greiða ekki virðisaukaskatt og tolla af vörukaupum við komu til landsins á meðan þeir sem ekki ferðast greiða þessi gjöld við kaup á vörum.

Áskorun

SVÞ skora á stjórnvöld að leggja sem fyrst niður tollfrjálsa komuverslun í FLE og öðrum komustöðum til landsins, jafna þannig samkeppnisstöðu innlendrar verslunar og efla verslunarrekstur sem skilar eðlilegum tekjum til samfélagsins.