Bílaframleiðandinn Toyota tilkynnti í dag að félagið hygðist draga úr framleiðslu sinni í september um 40% frá því sem áður var áætlað. Ástæðan er skortur á nauðsynlegum íhlutum í bifreiðar sem haft hefur umtalsverð áhrif á geirann. Sagt er frá á vef Reuters .

Þegar faraldurinn skall á blasti við að loka þyrfti verksmiðjum tímabundið auk þess að mikil óvissa var uppi um hve mikil eftirspurn yrði eftir nýjum ökutækjum. Margir framleiðendur brugðu þá á það ráð að ýmist smækka pantanir á íhlutum eða þá að afpanta þá. Meðal þess voru flögur sem tengjast tölvukerfi bifreiða.

Það leiddi síðan til þess að framleiðendur flaganna seldu þær annað eða drógu úr framleiðslu hjá sér. Þegar hagkerfi heimsins tóku við sér á nýjan leik var eftirspurnin eftir flögum umtalsvert meiri en framboðið sem hefur leitt til sér að erfiðara er að koma bifreiðum af færibandinu. Það hefur dregið úr framboði á nýjum bílum sem aftur hefur hækkað verð á notuðum bílum til muna víða erlendis.

Staðan hjá Toyota er þó betri en hjá mörgum öðrum framleiðendum þar sem birgðastaðan á flögum er betri en víða annars staðar. Ástæðan eru aðgerðir sem félagið greip til í kjölfar jarðskjálftans í Japan árið 2011 og áfallsins í Fukushima í kjölfarið.

Samkvæmt tilkynningu frá framleiðandanum stefnir áfram á að framleiða 9,3 milljónir bifreiða á rekstrarárinu – það teygir sig inn í mars á næsta ári – og að selja 8,7 milljónir. Í næsta mánuði er aftur á móti stefnt að því að draga úr framleiðslu um 360 þúsund bifreiðar.

Aðrir framleiðendur, til að mynda Volkswagen og Ford, hafa dregið úr framleiðslu vegna skorts á flögum. Ford hefur til að mynda lokað verksmiðju sinni í Kansas tímabundið, þar sem flaggskipið F-150 er framleitt, og þá býst Volkswagen að afgangur þriðja ársfjórðungs gæti orðið erfiður.